Fegurðin býr í bókum

Bækurnar

Síðumúli 35 Bakhús/108 Rvk.

Crymogea

511 0910

English

Nína S.

Fyrsti íslenski kvenmyndhöggvarinn

Nína Sæmundsson lærði höggmyndalist við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn á öðrum og þriðja áratug 20. aldar og starfaði sem höggmyndalistamaður alla sína ævi, fyrst íslenskra kvenna. Hún vakti strax athygli í Danmörku á námsárunum, starfaði um tíma í París en fluttist síðan til Bandaríkjanna þar sem hún bjó í þrjá áratugi.

Verk Nínu mótuðust í upphafi af nýklassísku stefnunni sem var ráðandi í höggmyndagerð og arkitektúr á Norðurlöndum á upphafsáratugum 20. aldar. Dvöl hennar á Ítalíu og í Frakklandi styrkti enn tök hennar á klassískri formmótun, en eftir að hún kom til Bandaríkjanna þróuðust verk hennar í átt að art deco-stíl. Nína bjó í rúm tuttugu ár í Los Angeles og þar varð hún fyrir miklum áhrifum frá tré- og steinskurði frumþjóða Kyrrahafseyja og Norður-Ameríku. Flest fígúratíf verk hennar frá lokaskeiði ferils hennar markast af þessum áhrifum, sem og meðvitaðri vinnu með náttúruleg form steins og viðar.

Nína flutti aftur til Íslands um miðjan sjötta áratuginn, en þau umskipti reyndust ekki góð fyrir listrænan feril hennar. Höggmynd hennar, Hafmeyjan, sem unnin var í nýklassískum stíl í anda art deco, var sett upp í miðborg Reykjavíkur og vakti í senn andstöðu módernista og íhaldssamari afla. Deilunum um verkið lauk með því að það var sprengt í loft upp á nýársnótt 1960. Eftir það dró Nína sig í hlé og lést fáeinum árum síðar.

Lesa meira