Júní kemur út fyrsta júní

31. maí 2011

Juni RGB_thumb

Ein fallegasta bók Crymogea til þessa, bókin Júní eftir Hörpu Árna­dóttur, kemur út fyrsta júní 2011. Júní kemur út tengslum við sýningu Hörpu, Mýrarljós, í Listasafni ASÍ sem er hluti af Listahátíð 2011.

Crymogea býður alla velunnara sína velkomna á útgáfuhóf í Listasafni ASÍ, Freyjugötu 41 þann fyrsta júní klukkan 17 – 19.

Júní er einstakt samspil vatns­litamynda og ljóðrænna dagbók­arbrota þar sem Harpa Árna­dóttir fangar andblæ íslenska sumarsins. Bókin er afrakstur vinnu­stofudvalar hennar í Skagafirði vikurnar þegar sólar­gangur er lengstur, blóm springa út og grös stinga höfðum upp úr sinunni. Á ferðum sínum um land og fjöll skráir hún undrin sem verða á vegi hennar og alls staðar skín í gegn að þessi veröld er hverful og brothætt. Innan skamms er sumarið liðið.

Júní er ekki lík neinni annarri bók. Hún líkist innbundu safni nýgerðra vatns­litamynda og textablaða sem smeygt hefur verið inn í möppu. Stór bunki af hrífandi textum og myndum sem lýsa daglegri reynslu af umhverfi og náttúru. Því sem gerir sumarið að sumri: fiðrildi, fífu og fjalldalafífli.

Harpa Árna­dóttir er fædd árið 1965 á Bíldudal í Arnarfirði. Eftir háskólanám í sagnfræði og bókmenntum fór hún í Myndlista– og hand­íðaskóla Íslands og lauk fram­haldsnámi við Lista­há­skólann í Valand, Gautaborg. Harpa hefur sýnt víða og eru verk hennar í eigu ýmissa opinberra safna og einka­safnara á Íslandi og í Svíþjóð. Hún hefur hlotið verðlaun fyrir teikningar hjá Þjóðlistasafni Svíþjóðar.

166 bls.
300 x 210 mm
Hönnuðir: Hildigunnur Gunn­ars­dóttir og Snæfríð Þorsteins
Ensk þýðing: Sarah Brownsberger

Kristján B. Jónasson
skrifaði